Landhelgisgæsla Íslands/Icelandic Coast Guard (Facebook)
Tundurduflið sem kom í veiðarfæri togara var í kvöld dregið út í Eyjafjörð og því komið fyrir á stað þar sem því verður eytt í birtingu á morgun.
Séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna málsins fyrr í dag og lögreglan á Norðurlandi eystra lokaði hluta af hafnarsvæðinu á Akureyri.
Aðgerð lögreglu og Landhelgisgæslunnar var umfangsmikil. Sprengjusérfræðingarnir byrjuðu á að rannsaka sprengjuna sem reyndist vera tundurdufl.
Tryggja þurfti hvellhettu duflsins áður en hægt var að hefja flutning þess. Að því búnu var tundurduflinu komið fyrir á lyftara og það fært innan hafnarsvæðisins. Af lyftaranum var tundurduflið híft og því komið fyrir í sjó. Næst var það dregið með dráttarbáti hafnarinnar á heppilegan stað þar sem gert er ráð fyrir að því verði eytt í birtingu á morgun.